Haukur og Heidrun i Danmorku

mánudagur, júlí 31, 2006

aahhhh...

Já viti menn þá er maður skyndilega kominn til Íslands í "svala" veðrið þar :) Mínir yndislegu foreldrar ákváðu að bjóða okkur heim og þáðum við það með þökkum :) Þau töluðu við okkur síðasta fimmtudagskvöld og var ég komin í flugvélina minna en sólahring seinna :) Hentaði mér mjög vel því að Sissa var einmitt að gifta sig síðasta laugardag og náði ég þar með að taka þátt í yndislegum degi hennar og Stulla :) Haukur er samt því miður ekki enn kominn til landsins en hann mun koma næsta föstudag. Hann þarf víst að vinna karlinn :(

En eins og ég var að segja þá náði ég að vera með í brúðkaupi Sissu og Stulla og var það alveg frábær dagur í alla staði!! Þau voru svo hamingjusöm og falleg! Ég er alveg viss um að þau hefðu viljað að dagurinn hefði verið aðeins lengri :)
Það sem var svo æðislegt við brúðkaup þeirra var að svo margir af þeirra vinum og ættingjum gátu tekið þátt í athöfninni og sjálfri veislunn, þar á meðal var presturinn mjög góður vinur Sissu úr skátunum og allt tónlistafólkið í kirkjunni og veislunni voru vinir og ættingjar sem að voru svo æðisleg að taka þátt í þessu öllu saman :) Alveg hreint frábært í alla staði!

Ég er nú ekki búin að vera á landinu lengi en er búin að hitta fullt af fólki og gera ýmislegt :) Er þar á meðal búin að fara í fjölskyldu og húsdýragarðinn!! Ég held svei mér þá að ég hafi síðast farið í hann þegar að Ragnar var pínulítill! Verð að segja að mér finnst þetta orðið mikið peningaplokk! Ég man ekki betur en að þegar maður var yngri að þá borgaði maður bara inn í garðinn og svo mátti maður fara í hvaða tæki sem er. Núna borgar maður 450 fyrir börn og 550 fyrir fullorðna inn og svo ef að maður vill fara í tæki eða leyfa börnunum að fara í tæki þá þarf að kaupa miða sem að kosta hvorki meira né minna en 170 kr. stykkið og svo kostar nokkra miða í hvert tæki! Það er dýr dagur að fara með fjölskylduna í þennann garð...

Jæja ætla að hætta að röfla og fara að gera eitthvað að viti eins og að fara í bað og slappa af :)
Set inn myndir frá brúðkaupinu þegar að ég kem aftur til Dk. Snúran er heima :)

Bið að heilsa í bili.

mánudagur, júlí 24, 2006

Úúúúfffffff....

Það er allt of heitt!! Ég er gjörsamlega að farast úr hita! Hvernig fer fólk eiginlega að í löndum þar sem að hitinn fer upp í 50 stig með 50% raka? Ekki skil ég það. Ég nenni ekki einu sinni að vera úti í þessum hita ég kem heim úr vinnunni set viftuna í gang og ligg í algeru móki!

Núna er ég farin að skilja þessar köldu sundlaugar hér í Dk, þær eru bara algerlega nauðsynlegar í þessum hita. Við fórum einmitt í sund í gær og syntum aðeins. Ég er að reyna að losna við þessu blessuðu bjúg sem að ég fæ í hitanum og var mér ráðlagt að synda. Virkar ágætlega á meðan að ég er í kaldri lauginni og rétt á eftir en svo vinnur hitinn aftur ég fæ fíla-lappir :)
Hugsa að ég skelli mér bara aftur í sund það er svo gott að komast í kalda laugina :)

Annars er bara nóg að gera í vinnunni þar sem að ein af vinnufélugum mínum var að slasa sig og kemur ekki til vinnu alla þessa vikuna. Það þýðir að ég er alein með heila stofu í eina viku! Það er ekkert vandamál upp á að taka sjálfar myndirnar, það er bara svo mikið vesen vegna þess að ég er jú bara nemi og þarf að fá allar myndir samþykktar af annaðhvort geislafræðing eða lækni. Það þýðir að ég get ekki sent sjúklingana heim þó að ég sjái að myndirnar séu í lagi og þurfa þeir því að bíða á ganginum þar til einhver hefur tíma til að kíkja á myndirnar og það getur stundum tekið dágóða stund!! Aumingja Sjúklingarnir!! En svona er það nú bara.

jæja núna ætla ég að fara að þrífa í hitanum... úfffff...

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Vinna, hiti og hversdagsleikinn...

Jæja þá eru allir gestirnir okkar farnir og við hjónaleysurnar orðin ein i koti. Það er sko ekki laust við að maður sakni allra og gauragangsins sem að þeim fylgdi. Maður er bara komin í vinnu og hversdagsleikinn tekinn við! Ekki það að ég njóti þess ekki að vera í vinnunni, get ekkert kvartað þar. Ég fékk þá vinnu sem að ég var að vonast eftir og allir alltaf jafn æðislegir þar :) Það eina sem að ég get eitthvað kvartað yfir er þessi blessaður hiti!! Það er svo erfitt að vinna í svona miklum hita hlaupandi fram og til baka allan daginn og ekki hjálpar það að ég er með risa kúlu framan á mér sem er eins og bakaraofn!
Ég ætti ekkert að vera að kvarta því fyrr en varir verður aftur orðið kalt og ég farin að sakna góða veðursins! Er þetta ekki bara týpískt? Maður getur alltaf fundið eitthvað að kvarta og væla yfir...

Ég er annars búin að setja fullt af myndum frá sumarfríinu, bumbumyndir og nýjar sónarmyndir inn á barnaland hjá litla krílinu okkar þannig að það er um að gera að kíkja á það :) Linkurinn er hægra meginn á síðunni okkar. Stundum birtirs ekkert hægra meginn hjá sumum og þá þarf maður bara að skrolla alla leiðina niður og linkarnir eru þá allir neðst. Ég veit ekki af hverju þetta gerist en það fer allt eftir því í hvaða tölvu maður skoðar þessa síðu hvort að maður sjái linkana til hliðar eða neðst... Mjög pirrandi!!

jæja er farin að gera eitthvað að viti er búin að vera í tölvunni í marga tíma núna...

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Sól og sumarsæla...

Já það er sko aldeilis kominn tími á smá blogg. Það er ekki hægt að segja annað en að sumarið hafi leikið við okkur "danska" liðið síðast liðnu daga. Það er búið að vera yfir 30 stiga hiti og eiginlega bara hálf ólíft úti! En maður má víst ekki kvarta því að þá kemur rigningin og ekki viljum við hana.
Annars er bara nóg að gera þessa daganna þar sem að við erum með fullt hús af frábærum gestum. Ráðhildur systir og fjölskyldan hennar og Ragnar komu síðasta föstudag og svo núna á þriðjudaginn komu mamma og pabbi okkur á óvart og komu labbandi inn í kolonihaven þar sem að við sátum og spiluðum. Ekki leiðinlegt það!!! Þannig að nú er bara hele familien mætt á svæðið til að njóta góða veðursins, alveg frábært!! Þá er bara að vona að það endist. Spáin er reyndar ekkert of góð, við verðum bara að bíða og sjá...

Jæja verð að fara að klæða mig og koma mér á fætur...